Um ellina
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Mjúk spjöld | 1982 | 108 | 2.990 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Mjúk spjöld | 1982 | 108 | 2.990 kr. |
Um bókina
Marcus Tullius Cicero var uppi á 1. öld fyrir Krist, þegar stóð yfir gullöld rómverskra bókmennta og umbrotaskeið í stjórnmálum rómverska ríkisins. Cicero lét mikið að sér kveða á báðum sviðum, enda er nafn hans enn meðal þeirra frægustu úr fornöld. Um ellina er eitt aðgengilegasta heimspekirit þessa meistara latneskrar tungu og hefur verið víðlesið að fornu sem nýju.
Ritið er stutt samræða í aristótelískum stíl, en ólíkt samræðum Platóns er þar einni persónu falið að reifa umfjöllunarefnið lungann úr bókinni; hér hinum sögufræga Cató eldra, sem er látinn mæla fram sjónarmið Ciceros sjálfs. Höfundur beitir þeirri aðferð í röksemdafærslu sinni að taka saman þær staðhæfingar sem helst eru hafðar sem rök fyrir því að ellin sé böl og hrekja skipulega hverja fyrir sig. Þannig andmælir hann fyrst þeirri skoðun að ellin útiloki menn frá störfum sínum, þá að hún dragi úr þreki þeirra, að hún svipti þá lífsnautn og loks að vissan um nánd dauðans hefti lífsgleði fólks.
Cicero hafði tvo um sextugt þegar hann samdi samræðuna, en starfsþrek hans og afköst höfðu þó síst dvínað með aldrinum. Ári síðar var hann myrtur af pólitískum andstæðingum sínum. Í verki sínu um ellina tekst hann á við veigamiklar spurningar, fyrst og fremst þá hvernig lífinu skuli háttað þannig að ellin verði manni jafndýrmæt og önnur æviskeið, en einnig ræðir hann um dauðann og hvort hann beri að óttast sem böl eða taka sem blessun. Röksemdir Ciceros sverja sig hér sem oftar í ætt við stóuspeki, þótt hann fylgi þeirri stefnu ekki í einu og öllu. Í ritum sínum reynir hann að túlka gríska hugsun fyrir Rómverjum og bætist því við eigið vægi þeirra heimildagildi um hinar hellenísku heimspekikenningar, auk þess sem hann skrifaði fyrstur manna um ýmis heimspekileg efni á latínu og átti þar með ríkan þátt í sköpun þess tungutaks sem mótað hefur hugsun og fræðastarf á evrópskum málum.
Um ellina fylgir inngangur Eyjólfs Kolbeins, þar sem hann greinir frá skipan rómverska lýðveldisins á dögum Ciceros, starfsferli ræðuskörungsins og persónu hans, sem er óvenjulega vel þekkt af fjölda sendibréfa hans til vinar síns Atticusar.
Þýðing: Kjartan Ragnars.
Eftir Cicero hefur einnig komið út Lærdómsritið Um vináttuna.