Franski landbúnaðar-verkfræðingurinn, ljóðskáldið og rithöfundurinn Michel Houellebecq hefur verið kallaður „rokkari franskra bókmennta“ og er margverðlaunaður fyrir verk sín. Meðal annars hlaut hann virtustu bókmenntaverðlaun heimalandsins, Prix Concourt, fyrir nýjustu skáldsögu sína, La carte et le territoire – Kortið og landið, sem kom út 2010. Sú saga er væntanleg á íslensku hjá Máli og menningu í haust í þýðingu Friðriks Rafnssonar.
Sagan segir frá myndlistarmanninum Jed Martin sem verður þekktur fyrir sérstæðar ljósmyndir af Michelin-landakortum en málar síðan mikla myndaröð af fólki í ólíkum starfsgreinum. Þegar hann undirbýr sýningu á henni ákveður listaverkasalinn hans að fá rithöfundinn fræga, Michel Houellebecq, til að skrifa grein í sýningarskrána gegn því að Jed máli mynd af honum. Sýningin slær í gegn og málverkin seljast fyrir óheyrilegar upphæðir. En Jed Martin bregður í brún þegar lögreglan hefur samband við hann nokkru seinna vegna óhugnanlegs morðmáls … Sagan er bæði skemmtileg og spennandi og sameinar raunar á einstæðan hátt glæpasöguna, örlagasögu einstaklings, lýsingu á sambandi föður og sonar og hárbeitta greiningu á þróun listheimsins og samfélagsins á 21. öldinni. Um hana sagði Alex Clark í The Guardian: „Þessi fimmta skáldsaga hans er bæði skemmtilega skrítin og öfugsnúin, þar þróast hálfháðsleg rannsókn á listheiminum út í blóði drifið morðmál, raunsæilegum skáldsagnapersónum er blandað saman við í hæsta máta óraunsæjar persónur sem reynast spretta beint úr veruleikanum, og höfundurinn sjálfur læðist hæversklega inn í söguna en yfirgefur hana með háum hvelli …“ Áður hafa tvær skáldsögur Houellebecqs komið út á íslensku í þýðingu Friðriks, Öreindirnar (2000) og Áform (2002).