TMM 3. hefti 2010
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Mjúk spjöld | 2010 | 144 | 1.765 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Mjúk spjöld | 2010 | 144 | 1.765 kr. |
Um bókina
Sagan um Fritz Höger og Gunnar Gunnarsson og Skriðuklaustur sem þau Pétur H. Ármannsson og Silja Traustadóttir rekja hér í heftinu er merkileg fyrir ýmissa hluta sakir. Hún er til að mynda vitnisburður um mýtugerð. Um þessar framkvæmdir skrifaði arkitektinn greinina „Wir Bauen Gunnar Gunnarsson auf seiner Heimatinsel seinen Horst“ eða „Við byggjum Gunnari Gunnarssyni hreiður á heimaeyju hans“. Jafnvel þótt hann fari ekki beinlínis með rangt mál og geri sér til að mynda grein fyrir því að „frú Gunnarsson [muni ekki geta] þvegið þvottinn sinn í Geysi“ fer ekki milli mála að arkitektinn geri sér býsna háleitar hugmyndir um líf rithöfundarins hér á landi: „Og allt, sem hann þráði, umlykur hann – og frá þessum einmanalega stað sendir hann geisla sína út í heiminn, líkt og norðurljósin á löngum vetrarkvöldum“ (sjá bls. 39).
Þessi saga er líka vitnisburður um mýtugerð Íslendinga um aðrar Evrópuþjóðir, því að sú saga hefur orðið lífseig að Fritz Höger hafi teiknað Arnarhreiðrið fyrir sjálfan Hitler fyrir utan aðrar tröllasögur sem spunnust um þetta hús. Og loks má segja að sagan sýni mýtusmíði Íslendinga um sjálfa sig, því að áform Gunnars um búskap þar eystra og búsetu reyndust ekki raunhæf.
Samspil skáldaóra og atvinnulífs kemur líka við sögu í grein Hannesar Péturssonar um Einar Ben og kvæði hans Bláskógarveg, og má segja að við séum enn ekki búin að bíta alveg úr nálinni með þær hugsjónir allar. Að öðru leyti er heftið fjölbreytt að vanda, stútfullt af fróðleik, skáldskap, hugleiðingum, ritdómum og ádrepum. Við þökkum skilvísum áskrifendum fyrir að gera þetta allt kleift og brýnum hina sem kunna að hafa gleymt sér – og okkur – til að ráða snarlega bót á því og stökkva í einkabankann – eða bara næsta útibú.
Guðmundur Andri Thorsson