Maurabúið hennar Söru er unglingasaga eftir breska höfundinn Harry Gilbert. Í sögunni segir af 14 ára gamalli stúlku, Söru að nafni, sem “fer út af sporinu” eins og það er kallað þegar móðir hennar gengur út af heimilinu og skilur hana eftir ásamt pabba hennar. Hún lendir í vandræðum í skólanum og er flutt í nýjan skóla þar sem hún kynnist nýjum vinum og byrjar að ná áttum. Og þá verður slys! Sara er nærri drukknuð og fellur í dauðadá og á meðan líkami hennar dvelur í dásvefni leggur hún af stað í ævintýralegt ferðalag á vit maura í maurabúi. Þar þarf hún að glíma við ógnvekjandi afleiðingar af gjörðum sínum og vina sinna. Sara er vandanum vaxin og hún áttar sig á að afskipti okkar af umhverfinu eru ekki alltaf til góðs þótt við viljum vel. Spennandi og óvenjuleg unglingabók sem vekur lesandann til umhugsunar um samskipti manns og náttúru.