Laókóon
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2007 | 365 | 3.090 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2007 | 365 | 3.090 kr. |
Um bókina
Gotthold Ephraim Lessing gaf út Laókóon – eða um mörkin milli málverksins og skáldskaparins árið 1766. Ritið naut strax mikillar hylli og er eitt af grundvallarverkum nútíma fagurfræði. Segja má að Lessing hafi umbylt hugmyndum manna um muninn á myndlist og skáldskaparlist og þannig komið miklu róti á kenningar um eðli og viðfang listarinnar. Laókóon hafði til dæmis afgerandi áhrif á Jóhann Gottfried Herder og Jóhann Wolfgang Goethe. Verkið hefur verið þýtt á fjölda tungu mála og birtist nú í vandaðri þýðingu Gauta Kristmannssonar sem einnig ritar greinargóðan inngang, og Gottskálks Jenssonar.
Bókin sækir titil sinn til einnar af frægustu styttum fornaldar, af prestinum Laókóoni og sonum hans þar sem tveir höggormar ráðast á þá þegar hann er að fórna guðunum nauti fyrir utan Tróju. Söguna er að finna í Eneasarkviðu Virgils og í öðrum fornum ritum. Lessing sækir innblástur sinn í þessa styttu og lýsingu á henni sem Winckelmann hafði skrifað nokkru áður. Fegurðarskyn og næmi Lessings fær svo sannarlega að njóta sín þegar hann lýsir styttunni og finnur að innsæi Winckelmanns. Seinna setur hann fram hugmynd sína um muninn á milli málverks og skáldskapar, en hún byggist á þeirri einföldu forsendu að myndin tilheyri rúminu en skáldskapurinn tímanum. Hið fyrra notar fígúrur og liti í rúmi, það síðara framsögð hljóð í tíma. Og teikn sem raðast hlið við hlið geta aðeins tjáð viðfang sem sjálft raðast hlið við hlið, en teikn sem fylgja rás tímans geta aðeins tjáð það sem gengur fram í tíma. Myndlist fæst því við frosin augnablik en skáldskapurinn rekur atburði og athafnir.
Vitanlega er þó ekki öll sagan sögð, því að Lessing skrifaði einnig að góður myndhöggvari hafi næmt auga fyrir frjóum augnablikum sem gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Þannig smeygir skáldskapurinn sér inn í frosin augnablik myndlistarinnar. Þessar kenningar Lessings ráku fleyg á milli myndar og máls sem höfðu sennilega aldrei verið aðskilin síðan Hóras lét þau frægu orð falla að skáldskapurinn væri eins og málverkið, ut pictura poesis. En Laókóon var upphafið á nýrri sýn manna á möguleika ólíkra listgreina og tengslin þeirra á milli. Bókin er mjög skemmtileg aflestrar og listilega skrifuð.
Íslensk þýðing og inngangur er eftir Gauta Kristmannsson, en þýðingar af grísku, latínu og ítölsku eru eftir Gottskálk Jensson sem einnig er ritstjóri. 2007. Þýðingar Gauta og Gottskálks á vandmeðförnum texta Lessings eru sérlega vandaðar.