Kjalnesinga saga: Íslenzk fornrit XIV
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2007 | 399 | 5.390 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2007 | 399 | 5.390 kr. |
Um bókina
Kjalnesinga saga gerist á dögum Haralds hárfagra en er rituð á 14. öld, ýkjufull skemmtisaga sem minnir mjög á fornaldarsögur. Höfundur hefur verið kunnugur á söguslóðum og gefur mörgum persónum heiti eftir örnefnum. Aðalgarpur sögunnar er Búi Andríðsson; hann dvelst um skeið hjá Dofra konungi í Dofrafjalli í Noregi og getur soninn Jökul við Fríði dóttur hans. Þegar Jökull kemur til fundar við föður sinn vill hann ekki við honum gangast, og þreyta þeir fang sem lýkur svo að Búi bíður bana, en Jökull hverfur á braut. Einhverjum uppskrifara hefur ekki þótt nóg frá Jökli sagt og aukið við sérstökum Jökuls þætti Búasonar sem er enn ýktari en sagan, segir frá viðureign garpsins við tröll og forynjur og lýkur svo að hann verður konungur í Serklandi.
Víglundar saga er hugljúf frásögn af ástum þeirra Víglundar og Ketilríðar sem í fyrstu er meinað að eigast en ná þó saman að lokum. Sagan er með allra yngstu Íslendingasögum, samin undir sterkum áhrifum frá riddarasögum, og er Tristrams saga nánasta fyrirmyndin. Hún er prýdd með tregafullum dróttkvæðum stökum sem Víglundur kveður til ástmeyjar sinnar.
Króka-Refs saga er einnig ung skáldsaga, haglega rituð og einkar skemmtileg. Refur hlýtur viðurnefni sitt fyrir kænskubrögð sín sem aldrei bregðast. Snjallastur er orðaleikur hans þegar hann lýsir vígi Skálp-Grana á hendur sér, og minna gáturnar á skáldskaparmál Snorra-Eddu. Á kafla víkur sögunni til Grænlands þar sem Refur lendir í miklum ævintýrum.
Þórðar saga hreðu er til í tveim gerðum, og er önnur heil en hin í brotum. Sagan er að mestu leyti skáldskapur, en ekki í anda fornaldarsagna eða riddarasagna heldur stæling á eldri Íslendingasögum (Egils sögu, Njálu o.fl.). Þórður er kappi mikill sem verst árásum margra manna í senn ef á þarf að halda. Hann var hagleiksmaður mikill og smíðaði fræga skála í Flatatungu og víðar.
Finnboga saga er enn ein ýkjusagan frá 14. öld, löguð eftir eldri Íslendingasögum. Finnbogi rammi ólst upp á Flateyjardal norður. Hann er líkur Þórði hreðu að garpskap og vígfimi og berst léttilega við ofurefli liðs. Sagan tengist Vatnsdælu þar sem segir frá skiptum Finnboga og frænda hans Bergs rakka við Ingimundarsyni. Hvor saga er vilhöll sínum hetjum, en auk þess liggja líklega að baki mismunandi munnmælasagnir sem valda því að margt ber á milli.
Gunnars saga Keldugnúpsfífls hefur mörg sömu efnisatriði sem Kjalnesinga saga og er líklega sniðin eftir henni. Hún er meðal allra yngstu Íslendingasagna.
Jóhannes Halldórsson gaf út með inngangi og skýringum.