Játningar I & II
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Pakkar | 2006 | 530 | 5.690 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Pakkar | 2006 | 530 | 5.690 kr. |
Um bókina
Tvö bindi í öskju.
Heilagur Ágústínus frá Hippó (354-430) var einn sá hugsuður sem öðrum fremur mótaði hugmyndafræði hinnar kristnu kirkju og þar með hugarheim vestrænna manna fram á okkar dag. Hann var áhrifamestur hinna svonefndu kirkjufeðra og frægastur þeirra á okkar dögum, sér í lagi fyrir trúarheimspeki sína, sem auk þess að hafa einstakt mikilvægi í hugmyndasögulegu samhengi er enn tekin alvarlega við rannsóknir á ýmsum mikilvægum vandamálum heimspekinnar.
Játningarnar eru, ásamt Um ríki Guðs, annað höfuðrit Ágústínusar. Að mörgu leyti er hér um að ræða einstakt verk, til að mynda er það talið vera fyrsta sjálfsævisagan á Vesturlöndum. Þá er öll bókin beint ávarp Ágústínusar til Guðs og hefur kirkjan tekið fjölmarga kafla hennar upp sem bænir. Framan af bókinni lýsir höfundurinn lífshlaupi sínu fram að því er hann missti móður sína rúmlega þrítugur og þroskaferlinu sem leiddi hann loks til þess að snúast til kristni. Áður hafði Ágústínus hlotið mikinn frama sem kennari í mælskulist og aðhyllst ýmsar heimspeki- og trúarstefnur, til að mynda Maníkisma, heimspeki efahyggjumanna og sér í lagi nýplatonisma, svo sem sjá má stað í allri hugsun hans og guðfræði.
Í seinni hluta Játninga snýr Ágústínus sér hins vegar að hreinni trúarheimspeki. Þar skýrir hann sköpunarsögu Mósebókanna á allegórískan hátt, fjallar um eðli tímans og ráðgátuna um það hvernig sambandi Guðs, sem er eilífur og óbreytanlegur, við sköpunarverkið getur verið háttað, þar sem það síðarnefnda er tímanlegt og hverfult. Þessir tveir ólíku hlutar verksins mynda þó eina heild því ævisaga Ágústínusar sjálfs er í augum hans dæmi um það lögmál sem allt sköpunarverkið er ofurselt; sérhver hlutur á tilvist sína aðeins í Guði og hlýtur að leitast við að snúa aftur til Hans.
Áður hefur komið út á íslensku þýðing Sigurbjörns Einarssonar á fyrstu níu bókum Játninganna, en nú hefur sú þýðing verið endurskoðuð og seinni fjórum bókunum bætt við. Þá bætast við þessa útgáfu inngangskaflar eftir Einar Sigurbjörnsson annars vegar og Eyjólf Kjalar Emilsson hins vegar, þar sem fjallað er um Ágústínus bæði sem guðfræðing og sem heimspeking.