Innræti
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Mjúk spjöld | 2020 | 58 | 3.890 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Mjúk spjöld | 2020 | 58 | 3.890 kr. |
Um bókina
Ég hef ferðast víða
staðið við helgidóm Majanna í frumskóginum
heimsótt stærsta moll í Ameríku
skoðað kóralrifin
En í gær rann upp fyrir mér
að ég hef aldrei séð broddgölt
Hvernig má þetta vera?
Þetta hversdagslegasta dýr Evrópu
erkitákn í sögum og ljóðum
og ég hef hvergi séð það
nema í uppfærslu Þjóðleikhússins á Dýrunum í Hálsaskógi
Og mér skildist
þarna í gær
að kannski muni ég lifa alla mína daga
án þess að sjá broddgölt við iðju sína
Það rann upp fyrir mér
að ég veit ekki einu sinni hvernig ég ætti að haga ferðum mínum
til þess að vera alveg viss um að sjá broddgölt
Og í fyrsta sinn um árabil
fannst mér veröldin
óumræðilega
stór
Arndís Þórarinsdóttir er með BA-próf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og MA-próf í ritlist frá Goldsmiths College í London og Háskóla Íslands. Hún birti fyrst smásögu í Tímariti Máls og menningar árið 2005 og skrifaði eftir það reglulega í blöð og tímarit. Fyrsta bók hennar var unglingasagan Játningar mjólkurfernuskálds sem kom út árið 2011 og var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna. Nýlega hefur Arndís sent frá sér vinsælar barnabækur, Nærbuxnaverksmiðjuna og Nærbuxnanjósnarana, og var sú síðarnefnda tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Arndís hlaut viðurkenningu í samkeppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör árin 2016 og 2019.
5 umsagnir um Innræti
embla –
„Í þessari fyrstu ljóðabók Arndísar Þórarinsdóttur er að finna leiftrandi lýsingar í meitluðum og fumlegum ljóðum sem skilja mikið eftir sig í huga lesandans að lestri loknum.“
Umsögn dómnefndar / Íslensku bókmenntaverðlaunin
embla –
„Innræti er athyglisverð ljóðabók sem enginn byrjendabragur er á – enda Arndís reyndur höfundur þótt bókin sé frumraun hennar á sviði ljóðlistar.“
Soffía Birgisdóttir / Skáld.is
embla –
„ […] höfundur vinnur úr sínum þemum á einkar öruggan hátt; engu er ofaukið og heildarsvipurinn er mjög sannfærandi.“
Árni Davíð Magnússon / Bókmenntavefurinn
embla –
„Ég hló upphátt oftar en einu sinni, mér finnst hún ansi nösk á flottar myndir og skýra sýn.“
Sunna Dís Másdóttir / Kiljan
embla –
„Innræti er dásamleg ljóðabók – uppfull af ást, húmor, ótta og smá kvíða. Ég get ómögulega mælt nógsamlega með henni.“
Katrín Lilja / Lestrarklefinn