Hvítur jökull, snauðir menn
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Kilja | 2014 | 347 | 2.990 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Kilja | 2014 | 347 | 2.990 kr. |
Um bókina
Blátt vaðmálsupphlutsfat með níu litlum silfurmillum, annað með átta koparmillum og þriðja með sex. Bláröndótt hvunndagssvunta og blá þríhyrna, svartur nærpilsgarmur, hnjáskýlur og röndótt pils. Einskeftutreyja, sniðtreyjugarmur, ný vaðmálsskyrta og önnur garmur. Röndótt litarsvunta, blá peysa, tvær húfur, önnur nýleg og hin forn. Tvennir sokkagarmar bláir, neðanfestingar í sama lit, hvítir háleistar og íleppar, þrennir vettlingar. Svartur léreftsklútur með bekkjum og grænröndóttur silkidreginn, þriðji bládropóttur og svartur. Lítilfjörlegt belti með silfurpörum.
Þetta var fatnaður Sigríðar Bergþórsdóttur vinnukonu sem dó úr mislingum 21 árs gömul í Húsafelli 14. júlí 1846. Hún átti líka guðsorðabók, ask, spón og bandprjóna, vasa með nálhúsi og fleira smálegt. Þúsundir uppskrifta af þessu tagi eru til frá 18. og 19. öld af landinu öllu sem sýna lífskjör almennings betur en aðrar varðveittar heimildir.
Í þessari bók birtast skrár yfir eignir sextán kvenna og ellefu karla sem bjuggu í kirkjusóknum Gilsbakka og Stóra-Áss í uppsveitum Borgarfjarðar fyrir miðja 19. öld. Við lesturinn birtist daglegt amstur fólks og viðleitni þess við að sjá fyrir sér og sínum, en jafnframt má greina einbeittan vilja til uppbyggingar, jafnvel framtíðarsýn. Í inngangi er gerð grein fyrir sögu svæðisins og útskýrð tilurð heimilda út frá löggjöf um erfðir. Heiti bókarinnar er sótt í ljóð eftir Jón Óskar.