“Prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands telur sig hafa fundið handrit að Íslendingasögu sem menn töldu glatað en sagan á meðal annars að hafa veitt höfundi Hringadróttinssögu innblástur. Skömmu síðar finnst hann látinn í Þingvallavatni. Magnús Jónsson, rannsóknarlögreglumaður í Boston, er á flótta undan harðsvíruðu glæpagengi og leitar skjóls á Íslandi en hann hefur ekki komið til landsins í tvo áratugi. Hér dregst hann inn í rannsókn á láti prófessorsins, ásamt því að takast á við drauga fortíðarinnar – og mennina sem vilja hann feigan. Michael Ridpath hefur sent frá sér fjölmargar spennusögur sem selst hafa í stórum upplögum víða um lönd. Hann fer nýjar leiðir í þessari alþjóðlegu metsölubók um íslenskan lögreglumann og grefur sig ofan í sögu og samtíma Íslendinga í mögnuðum trylli sem lesandinn leggur ekki frá sér fyrr en á síðustu blaðsíðu.”