Hólmfríðar saga sjókonu
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2016 | 347 | 6.790 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2016 | 347 | 6.790 kr. |
Um bókina
Hólmfríður var einstæð móðir, bóndi og sjómaður í Rangárþingi á 19. öld. Hún var af alþýðufólki og saga hennar veitir forvitnilega innsýn í harðneskjuleg lífskjör og baráttuþrek íslenskrar alþýðu. Við fylgjum örlagaríkri ættarsögu sem hefst undir Heklurótum og berst þaðan í vesturátt, allt til hinnar ungu Reykjavíkur.
Liðlega þrítug hafði Hólmfríður róið tólf vertíðir frá Landeyjasandi með þekktum aflaformanni. Síðar fékk hún kotið Ormsvöll í Hvolhreppi til ábúðar og var þar fullgildur bóndi um árabil. Líf Hólmfríðar var því um margt ólíkt því sem almennt tíðkaðist. Hver var þessi hugumstóra alþýðukona sem fæddist inn í samfélag vistarbands og húsaga þar sem gjaldmiðillinn var ríkisdalir og tólg? Hvernig tókst henni að hefjast þannig af sjálfri sér? Leitað er svara við því.
Engum sögum fer af því að Hólmfríður hafi verið við karlmann kennd fyrr en hún fertug að aldri eignaðist soninn Guðjón en faðir hans var kvæntur maður í sveitinni.
Guðjón Jónsson var kynsæll maður, eignaðist sex börn með þremur konum og eru afkomendur hans nú komnir vel á fjórða hundraðið. Við hittum hann fyrir í sjómennsku og púlsvinnu en einnig sem brúarvörð við Þjórsárbrú og viðgerðarmann prímusa á Stokkseyri. Samtíðarmenn þekktu hann sem glaðbeittan og skáldmæltan hagleiksmann.
Lífshlaup barnsmæðra Guðjóns varpar ljósi á umbrotasamt líf alþýðukvenna síðla á 19. öldinni. Hverjir máttu eigast og hvernig reiddi þeim börnum af sem lentu í fóstri hjá vandalausum?
Fyrir koma forvitnilegir og harðgerir forfeður sem börðust við forynjur og leituðu fjár svo langt inn á afrétti að hausti að þar eru kennd við þá örnefni. Í vegferð barna Guðjóns birtist síðan sú öra framþróun sem fyrri hluti 20. aldar bar í skauti sér.
Hólmfríðar saga sjókonu er í senn ættarsaga og saga þjóðar á umbrotatímum þegar Ísland þróast úr frumstæðu bændasamfélagi til nútímahátta.