Brennu-Njáls saga: Íslenzk fornrit XII
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 1971 | 514 | 5.390 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 1971 | 514 | 5.390 kr. |
Um bókina
Brennu-Njáls saga (eða Njáls saga, Njála) er lengst og frægust allra Íslendingasagna. Hún gerist á 10. öld og í upphafi 11. aldar, en er færð í letur nær lokum 13. aldar. Milli atburða og ritunartíma eru um það bil þrjár aldir, og er þess því vart að vænta að sagan sé reist á sönnum munnmælasögnum, enda er almennt viðurkennt nú á dögum að hún sé fyrst og fremst mikið skáldverk.
Njála er verk rithöfundar sem er hugfrjór og sér vítt um veröld hverja. Hann lifir á mótum tveggja tímabila sögu og menningar, milli Sturlungastorms og konungskyrrðar, milli þjóðfrelsis og þegnhlýðni, milli norrænna fræðaþula og suðrænna riddara. Hann hefur þekkt og numið fjöld eldri bókmennta – sögur, fræðirit, kveðskap, ættartölur og lögbækur. Hann hagnýtir þessar bókmenntir til eftirbreytni og endursegir jafnvel úr þeim heila þætti, ekki til þess að setja saman sanna sögu, heldur til að fella hana inn í sögu þjóðarinnar, til að gefa sínu ýkjufulla verki yfirbragð sannfræðinnar og skapa unaðsfulla spennu milli raunsæis og öfga, sannleika og skáldskapar.
Njálu hefur verið líkt við litskrúðugan haustskóg, og einnig við þroskaðan ávöxt sem er sætur af því að hann er í þann veginn að skemmast. Sögunni hefur einnig verið líkt við mikið haf með öldum og ládeyðu til skipta. Í hverjum kafla er stígandi, ris og hnig, andstæðum einstaklingum og fylkingum lýstur saman, en eftir orrustuna kemur logn og kyrrð. Tveir atburðir eru átakamestir, víg Gunnars á Hlíðarenda og brenna Njáls og sona hans. Í brennunni rís sagan hæst, en síðan kemur langur lokaþáttur eftirmála og hefnda uns garparnir tveir sem uppi standa, Kári og Flosi, fallast í faðma að sögulokum og lesandinn stígur hreinsaður út úr eldskírn harmleiksins.
Óvíða í bókmenntum heimsins birtist þvílíkur fjöldi einstaklinga sem hafa sín sérkenni er greina þá frá öllum öðrum. Sumir eru hófstilltir, aðrir örlyndir; sumir blendnir í skapi, aðrir göfuglyndir; sumir auvirðilegir, aðrir ofurglæstir, og þó enginn svo bjartur yfirlitum að mynd hans skýrist ekki af nokkrum skuggum.
Njála hrífur barnshugann með sínu einfalda tungutaki og stórfenglegu viðburðum, en síðan getur þroskaður maður lesið söguna aftur og aftur og ávallt fundið þar nýja snilld og speki.
Einar Ól. Sveinsson gaf út með inngangi og skýringum.