Bláa bókin

Gerð ÚtgáfuárSíðurVerðMagn
Innbundin 1998 255 2.990 kr.
spinner

Bláa bókin

2.990 kr.

Gerð ÚtgáfuárSíðurVerðMagn
Innbundin 1998 255 2.990 kr.
spinner

Um bókina

Ludwig Wittgenstein er talinn til áhrifamestu heimspekinga 20. aldar. Áhrifa hans gætir einkum í þeim greinum heimspekinnar sem kenndar eru við hugann og tungumálið en verk hans hafa líka orðið innblástur listamönnum og skáldum, enda þótt um öguð og á tíðum torskilin heimspekiverk sé að ræða.

Bláa bókin er fyrsta verk Wittgensteins sem kemur út á íslensku og ef til vill það aðgengilegasta, þótt hugmyndirnar sem undir liggja séu flóknar og margbrotnar. Höfundurinn útbjó hana upphaflega sem fjölrit handa nemendum sínum í Cambridge og dró hún nafn sitt af blárri hlífðarkápunni, en Wittgenstein gaf ekki út nema eitt heilt rit í lifanda lífi, þrátt fyrir að hafa varið miklum tíma við skriftir og endurskriftir.

Bláa bókin tilheyrir síðari hluta ferils Wittgensteins og hér birtist í verki sú aðferðafræði sem hann taldi að endurspeglaði hið raunverulega hlutverk heimspekinnar: að veita meðferð til að aflétta hinum andlegu óþægindum sem heimspekilegar spurningar tjá. Það sem við teljum vera heimspekileg vandamál eru í raun og veru dæmi um það hvernig tungumálið leiðir okkur í ógöngur. Okkur hættir til að halda að orðin í málinu hafi einhverja algilda merkingu og við misskiljum málfræði þeirra, til að mynda þegar við glepjumst til að halda að það „að hugsa sé athöfn sambærileg við að tala og að skrifa og hljóti þess vegna að hafa staðsetningu í líkamanum. Til að leiðrétta misskilning á borð við þennan, segir Wittgenstein, ber okkur að huga að því hvernig orðin eru notuð í daglegu tali, því merking þeirra er fólgin í notkuninni.

Þetta nýja sjónarhorn á heimspekina og tungumálið er eitt af því sem hvað helst hefur haldið nafni Wittgensteins á lofti. Hann vekur athygli á því að málinu er ekki ætlað eitthvert eitt sérstakt hlutverk, heldur eru notkunarmátarnir margir og lúta ólíkum lögmálum. Dæmi um þetta, sem hann nefnir málleiki, eru meðal annars að gefa skipanir, að lýsa hlutum eða atvikum, að segja sögur eða brandara, að setja fram tilgátur, að heilsa, þakka fyrir sig og biðja bænir.

Þorsteinn Gylfason ritar ítarlegan inngang að bókinni. Hann fjallar meðal annars um þróunina í hugsun Wittgensteins og hið menningarsögulega umhverfi sem mótaði hann, auk þess sem hann fer í saumana á ákveðnum heimspekilegum atriðum.

Tengdar bækur

1.890 kr.
2.590 kr.
3.690 kr.4.090 kr.
1.490 kr.
6.490 kr.
4.490 kr.
3.490 kr.
890 kr.
3.790 kr.
3.290 kr.
7.290 kr.

INNskráning

Nýskráning