Biskupa sögur II: Íslenzk fornrit XVI
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2002 | 380 | 5.390 kr. |
Gerð | Útgáfuár | Síður | Verð | Magn | |
---|---|---|---|---|---|
Innbundin | 2002 | 380 | 5.390 kr. |
Um bókina
Hungurvaka er saga fimm fyrstu biskupanna í Skálholti, frá Ísleifi Gissurarsyni, sem vígður var biskup 1056, til Klængs Þorsteinssonar sem andaðist 1176. Nafnið er dregið af því að höfundur vill að ritið veki hungur ungra manna til meira fróðleiks. Hungurvaka er stórmerk heimild um sögu Íslands á þessu tímabili, rituð í upphafi 13. aldar. Hverjum biskupi er lýst með sínum sérkennum, en hæst ber Gissur Ísleifsson.
Þorláks sögur helga. Eftir Klæng var biskup í Skálholti Þorlákur Þórhallsson, fyrsti og máttugasti dýrlingur Íslands (d. 1193). Hann var tekinn í heilagra manna tölu á alþingi árið 1198 og bein hans grafin úr jörðu og borin í Skálholtskirkju 20. júlí. Saga Þorláks var rituð oftar en einu sinni, bæði á latínu og íslensku. Latínusögur eru aðeins varðveittar í brotum, en til eru tvær heillegar sögur á móðurmálinu, kallaðar Þorláks saga eldri og yngri, eða Þorláks saga A og B. Þorláks saga A hefur í öndverðu verið skrifuð laust eftir 1200, um svipað leyti sem Hungurvaka. Þorláks saga B er framan af mjög samhljóða Þorláks sögu A, en þegar á líður skiljast sögurnar, og munar mestu að Þorláks saga B hefur alllangan þátt um deilur Þorláks biskups við höfðingja um yfirráð yfir kirkjustöðum. Frásögn þessi er nefnd Oddaverja þáttur af því að helsti andstæðingur Þorláks var Jón Loftsson í Odda.
Jarteinabækur Þorláks helga. Jarteinabók Þorláks biskups hin elsta (Jarteinabók I) er varðveitt í mjög fornu handriti, og er talið að þar sé um að ræða lítt breytta þá jarteinabók sem eftirmaður Þorláks, Páll biskup Jónsson, lét lesa upp á alþingi 1199. Síðan bættust í sífellu við ný kraftaverk, og því eru varðveittar margar jarteinabækur Þorláks.
Í þessu bindi er auk elstu jarteinabókar prentuð ein yngri gerð í heild sinni og brot úr nokkrum öðrum.
Páls saga biskups. Eftirmaður Þorláks á biskupsstóli í Skálholti var systursonur hans, Páll Jónsson (d. 1211). Páll var vel lærður maður og mikill kirkjuhöfðingi, og lýsir sagan vel framkvæmdum hans og ýmsum atburðum í landinu um hans daga. Páll lét gera steinkistu mikla sem hann var lagður í eftir dauða sinn. Þessi steinþró Páls biskups fannst við uppgröft í Skálholti 1954 með beinum hans og útskornum biskupsstaf.
Ísleifs þáttur biskups er stutt en skemmtileg frásögn af bónorðsför Ísleifs þegar hann fékk Döllu Þorvaldsdóttur frá Ásgeirsá í Víðidal.
Að síðustu eru hér prentuð ævaforn brot sem varðveist hafa af latínusögum um Þorlák helga ásamt íslenskri þýðingu.
Ásdís Egilsdóttir gaf út með inngangi og skýringum.
Ritstjóri: Jónas Kristjánsson.