Á puttanum með pabba er bók fyrir 7 – 12 ára börn. Sagan gerist í sumarfríi íslensk-ítölsku systkinanna Sonju og Frikka. Hún minnir um margt á „road movie” því þau lenda í ótrúlegum ævintýrum á óvæntu puttaferðalagi með pabba sínum.
Sonja og Frikki fara til Sikileyjar að eyða sumrinu með pabba, afa og ömmu. Fríið byrjar ekki vel því amma og afi verða snögglega að sinna veikum frænda og pabba er boðið draumahlutverk í kvikmynd á Spáni. Allt í einu er enginn til staðar á Sikiley til að sjá um systkinin. Á meðan pabbi reynir að fá pössun hjá vinum og nágrönnum kaupa systkinin flugmiða heim til Íslands. Eini gallinn er að mamma er ekki heima og svarar ekki símanum… Pabbi fylgir systkinunum til Íslands í þeirri trú að mamma finnist fljótt. Hún hefur hins vegar farið í útilegu austur til Hallormsstaðaskógar og gleymt símanum heima. Pabbi, Sonja og Frikki leggja því upp í óvissuferð til að elta hana uppi því annars missir pabbi af tækifæri lífs síns. Það er ekki þrautalaust því veskinu hans pabba er rænt á leiðinni til Íslands. Þau þurfa því að treysta á hugvit sitt og góðmennsku annarra til að allt gangi upp.