Lestrarátak

Um 60 þúsund bækur lesnar í lestrarátaki!

Í gær var dregið í lestrarátaki Ævars vísindamanns – framtaki á vegum Ævars Þórs Benediktssonar, leikara og rithöfundar, sem einnig er höfundur einnar vinsælustu barnabókar síðasta árs: Þín eigin þjóðsaga.

Átakið stóð frá 1. október síðastliðnum til 1. febrúar og fylltu börn í 1-7. bekk út lestrarmiða eftir hverjar þrjár bækur sem þau lásu. Eftir talningu kom í ljós að um 60 þúsund bækur voru lesnar á tímabilinu – sem er framar öllum vonum segir Ævar.

Vinningshafarnir fimm koma alls staðar af á landinu, þrír strákar og tvær stelpur.

Verðlaunin í átakinu eru einstök, en börnin fimm sem dregin voru úr pottinum verða gerð að persónum í glænýrri risaeðlu-ævintýrabók sem Ævar Þór er að skrifa og kemur út með vorinu.

„Bókin heitir Bernskubrek Ævars vísindamanns: Risaeðlur í Reykjavík og er æsispennandi bók um það þegar risaeðlur tóku yfir Höfuðborgarsvæðið og hvernig hópur af krökkum, ásamt 11 ára gömlum Ævari vísindamanni, reyndu að bjarga borginni. Rán Flygenring myndskreytir af sinni alkunnu snilld. Bókin kemur út í vor.“

Hinir fjölmörgu aðdáendur Ævars eiga sannarlega von á góðu í vor!

INNskráning

Nýskráning