Tímakistan

Tímakistan orðuð við verðlaun Norðurlandaráðs

Á vordögum voru tilnefningar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs kynntar í Norræna húsinu en Tímakistan eftir Andra Snæ var önnur þeirra bóka sem tilnefndar voru frá Íslandi.

Fjallað hefur verið um Tímakistuna í norrænum fjölmiðlum að undanförnu og hafa dómar verið afar lofsamlegir – bókin hefur meira að segja verið orðuð við verðlaunin. Danska blaðið Weekendavisen komst svo að orði: „Ég hef aldrei áður séð ævintýri jafn vel vel ofið saman við vísindaskáldsögu, fantasíu og samtímasögu. Þetta er sannarlega glæsilega gert og fullt af óvæntum uppákomum. Það kemur mér því ekki á óvart að hún hafi þegar unnið til nokkurra verðlauna á Íslandi. Ég yrði heldur ekki undrandi ef hún ynni Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.“

Við getum ekki annað en verið sammála þessum frábæra dómi. Það verður fróðlegt að sjá hver hreppir verðlaunin!

Í umsókn íslensku dómnefndarinnar segir m.a.:

Í Tímakistunni fléttast saman nútíð, framtíð og fortíð að ógleymdum ævintýraheimi sem allir kannast við en enginn hefur búið í. Það er í þessari mögnuðu fléttu staðreynda, sannleika, galdra og furðu sem Andri Snær Magnason spyr áleitinna spurninga um lifnaðarhætti og gildi hins vestræna nútímasamfélags og ábyrgð hvers einstaklings á ástandi heimsins. Í sögunni er glímt við tímahugtakið og snúið upp á gömul ævintýraminni af ástríðufullri hugmyndaauðgi. Andri Snær er einhver atkvæðamesti rithöfundur Íslendinga seinustu ár, hvass samfélagsrýnir sem iðulega fléttar saman skýrum boðskap og húmor. Hann hefur oft sagt ráðamönnum og stórfyrirtækjum til syndanna í verkum sínum og er Tímakistan þar engin undantekning.

INNskráning

Nýskráning