Þagnarmúr á stuttlista Sænsku glæpasagna-akademíunnar

Glæpasagan Þagnarmúr, eftir Arnald Indriðason, er tilnefnd til verðlauna Sænsku glæpasagna-akademíunnar sem besta þýdda glæpasaga ársins í Svíþjóð. Þýðandi Þagnarmúrs er Ingela Jansson.

Í ár voru 187 sænskar glæpasögur tilnefndar til verðlaunanna og 70 þýddar. Á stuttlistann náðu hins vegar einungis fimm sænskar glæpasögur og fimm þýddar. Meðal þýddu glæpasaganna á stuttlistanum má, auk Þagnarmúrs, nefna Blóðmána eftir Jo Nesbø.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bók eftir Arnald kemst á stuttlistann sem besta þýdda glæpasaga ársins í Svíþjóð því árið 2012 hlutu Furðustrandir þann heiður og Stúlkan hjá brúnni árið 2021. Árið 2005 hlaut hann verðlaunin fyrir Röddina, en þá voru þau kennd við lögreglumanninn Martin Beck, sem Maj Sjöwall og Per Wahlöö sköpuðu svo eftirminnilega í bókum sínum.

Tilkynnt verður um verðlaunahafa þann 3. desember næstkomandi.

INNskráning

Nýskráning