Ormstunga

Ormstunga – þriðja bók í „mögnuðum sagnaflokki“ á leið í verslanir

Aðdáendur Þriggja heima sögu hafa beðið óþreyjufullir eftir þriðja bindi verksins frá því að þeir skildu við söguhetjurnar með gríðarmikilli sprengingu í lok Draumsverðs. Nú hafa höfundarnir lokið við framhaldið og Forlagsfólk tilkynnir með stolti að Ormstunga kemur í verslanir miðvikudaginn fyrir páska.

Þriggja heima saga fór af stað með glæsibrag haustið 2012 þegar fyrsta bókin, Hrafnsauga, hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin. Í framhaldinu hlaut hún frábærar viðtökur, hreppti Íslensku bóksalaverðlaunin í flokki ungmennabóka og í fjögurra stjörnu dómi sínum í Fréttablaðinu sagði Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir: „Hrafnsauga er sígilt ævintýri, klassísk fantasía, stórskemmtileg og spennandi, og afskaplega vel skrifuð.” Og Árni Matthíasson tók í sama streng í Morgunblaðinu, gaf bókinni sömuleiðis fjórar stjörnur og sagði: „er hér komið upphaf að mögnuðum sagnabálki.“ Þá bætti Sigrún Þöll um betur í vefritinu Pjattrófurnar og sagði: „Ef þessi bók læðist í pakkann hjá barninu þínu mæli ég með að þú nappir henni og færð að lesa hana næst á eftir unglingnum á heimilinu, því þetta er frábær ævintýrasaga!“

Draumsverð hlaut ekki síðri viðtökur. Friðrika Benónýsdóttir sagði í Fréttablaðinu að þar færi „kröftugt og spennandi framhald Hrafnsauga. Fantasía með breiðri vísun, sannferðugum persónum og góðri sögu.“ Og Árni Matthíasson tók dýpra í árinni í Morgunblaðinu:  „Fyrri bókin í sagnabálknum Þriggja heima sögu, Hrafnsauga, hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2012 og stóð vel undir því. Þessi, sem segir líka frá ferðaraunum Ragnars, Breka og Sirju, er enn betri, mun betur skrifuð og framvindan ævintýralegri.“

Þriggja heima saga er breið furðusaga eftir æskuvinina Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Ragnarsson. Sagnaflokkurinn teygir anga sína um víða og framandi veröld og hentar lesendum á öllum aldri – stálpuðum börnum, unglingum og fullorðnum. Þriðja bókin, Ormstunga, kemur út í kiljuformi og er því einkar hentug að grípa með sér í fríið – eða bara upp í sófa. Það eitt er víst að lesendur verða ekki sviknir!

INNskráning

Nýskráning