Orð að sönnu

Orð að sönnu á fyrirlestraröð Hagþenkis

Jón G. Friðjónsson kynnir bók sína Orð að sönnu á fyrirlestraröð Hagþenkis miðvikudaginn 15. apríl kl. 12:15.

Orð að sönnu er efnismikið yfirlitsrit um íslenska málshætti og orðskviði, allt frá elstu heimildum til nútímans; stærsta málsháttasafn sem komið hefur út hér á landi. Í ritinu er fjallað um þúsundir málshátta, gerð nákvæm grein fyrir uppruna þeirra, elstu dæmum, afbrigðum og erlendum samsvörunum, sem og merkingu og notkun eftir því sem kostur er.

Íslenskir málshættir eru fjársjóður kynslóðanna, vitnisburður um speki og kunnáttu sem hefur fylgt þjóðinni frá fyrstu tíð. Lengi hefur vantað ýtarlegt rit þar sem leitast er við að skýra merkingu málshátta og varpa ljósi á breytingar sem hafa orðið á þeim í aldanna rás. Orð að sönnu er í senn hagnýtt uppsláttarrit fyrir allt áhugafólk um íslenskt mál og vandað fræðirit sem gagnast þeim sem vilja rannsaka uppruna og sögu íslenskra málshátta.

Bókin er á meðal þeirra tíu bóka sem tilnefndar voru til Viðkenningar Hagþenkis 2014 en verðlaunin voru afhent í byrjun mánaðarins. Það er Hagþenkir sem stendur að fyrirlestraröðinni í samstarfi við Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið en þar eru kynnt fræðirit, námsgögn eða önnur miðlun fræðilegs efnis til almennings sem þykja skara fram úr.

Fyrirlestrarnir fara allir fram á Reykjavíkurtorgi í hádeginu á miðvikudögum og er aðgangur ókeypis.
Smellið hér til að sjá veggspjald með upplýsingum um fyrirlestraröðina.

Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að viðurkenningarráð tilnefnir tíu höfunda og bækur er til greina koma.

INNskráning

Nýskráning