Forlagið efnir í þriðja skipti til rafbókasamkeppni undir heitinu Nýjar raddir.
Óskað er eftir handritum eftir höfunda sem ekki hafa gefið út fleiri en eitt prósaverk áður hjá atvinnuforlagi. Handritið skal vera einn samfelldur texti eða safn styttri texta og á lengd við nóvellu eða stutta skáldsögu (um 15.000 til 30.000 orð), ætlað fyrir fullorðna.
Handrit skulu send undir nafni höfundar ásamt kynningu á honum og fyrri ritstörfum.
Skiladagur handrita er 10. desember 2019.
Úr innsendum handritum verða valin þrjú að hámarki og gefin út í rafrænu formi undir merkjum Forlagsins næsta vor. Höfundar þeirra fá samning við Forlagið, fyrirframgreiðslu upp á 100.000 kr., ritstjórn og kynningu. Frá vinningshöfum er skýrt opinberlega á útgáfudegi.
Í dómnefnd sitja Silja Aðalsteinsdóttir, rithöfundur og ritstjóri, Atli Bollason bókmenntafræðingur og Sigríður Rögnvaldsdóttir, ritstjóri hjá Forlaginu.
Handrit skal senda á netfangið handrit@forlagid.is og merkja með „Nýjar raddir“.