Nýjar kiljur

Nýjar kiljur í vikunni

Næstkomandi fimmtudag koma út tvær sérlega áhugaverðar nýjar erlendar kiljur. Annars vegar er það hin dásamlega Etta og Otto og Russel og James, gullfalleg ferða- og lífssaga eftir Emmu Hooper og hins vegar er það hin hárbeitta, drepfyndna og á tímum óþægilega Aftur á kreik eftir Timur Vermes.

Etta og Otto og Russel og James:
Etta ætlar að ganga 3200 kílómetra til að sjá hafið. Hún er áttatíu og þriggja ára og hefur aldrei séð það fyrr. Hún skilur eftir miða í eldhúsinu með kveðju til Ottos – og á einhvern hátt skilur hann hvers vegna. Hann fór sjálfur í sína langferð til að berjast í fjarlægu landi. Eftir brottför Ettu tekst Otto á við djöfla seinni heimsstyrjaldarinnar en Russel vinur þeirra leggur af stað til að leita uppi konuna sem hann hefur ætíð elskað úr fjarlægð. Og James, honum þarftu að kynnast af eigin raun.

Þessi töfrandi saga af vináttu og ást fjallar um hvunndagshetjur í óvenjulegum aðstæðum, fólk sem lætur drauma sína rætast – hvert á sinn hátt.

Sum loforð endast ævilangt.

Nanna B. Þórsdóttir þýddi.

Aftur á kreik:
Adolf Hitler vaknar einn góðan veðurdag árið 2011 í almenningsgarði í Berlín eftir að hafa sofið frá árinu 1945. Hann veit ekkert hvað hefur gerst í millitíðinni en hyggst halda sínu striki hvað sem á dynur. Allir sem á vegi hans verða telja að hér sé snjall leikari á ferð og hann vekur hvarvetna hrifningu fyrir sannfærandi gervi og ótrúlega innlifun í hlutverk Foringjans. Fljótlega kemst hann í kynni við framleiðendur skemmtiþáttar í sjónvarpinu og fær þar tækifæri til að láta ljós sitt skína. Hann slær í gegn og myndskeið með ræðuhöldum hans slá öll áhorfsmet á YouTube. Leiðin virðist greið á ný …

Háðsádeilan um Hitler í nútímanum kom út í Þýskalandi árið 2012 og er orðin að margfaldri metsölubók þar og víðar. Timur Vermes er fæddur árið 1967 í Nürnberg og Aftur á kreik er hans fyrsta skáldsaga.

Bjarni Jónsson þýddi.

INNskráning

Nýskráning