Gerður Kristný

Njótið!

Strandir, nýútkomin ljóðabók Gerðar Kristnýjar, fær fjórar stjörnur hjá Kristjönu Guðbrandsdóttur í bókablaði DV í dag. Gagnrýnandinn segir Gerði líklega „til að vekja upp ástríðu fyrir ljóðalestri meðal ungs fólks með bókum sínum. Hún er einkar lagin við að orða hugsun sína svo hún nái að smjúga að hjarta hvers lesanda. Það er listin. Strandir er slík bók. Hún smýgur að hjartanu.“

Fleiri hafa lokið lofsorði á bók Gerðar. Í Morgunblaðinu sagði Ingveldur Geirsdóttir: „Ísköld „Skautaferðin“ er snilldarlega ort ljóð, sterkar myndlíkingar og snerpa. Við lesturinn skynjar maður skautablöðin sem fara á fullri ferð eftir ísnum og það er spyrnt fast og ákveðið svo ísflísarnar fljúga.“ Dómi Ingveldar fylgdu fjórar og hálf stjarna.

Í fjögurra stjörnu dómi Friðriku Benónýsdóttur í Fréttablaðinu segir:  „Nístandi kvölin smýgur í merg og bein lesandans, hár rísa og tár falla. Áhrifin eru í senn ógnvænleg og undurfögur og sterkari en ég minnist frá lestri nokkurs annars texta … Sterk, meitluð, falleg og listilega ort ljóð sem undirstrika enn stöðu Gerðar Kristnýjar sem eins okkar fremsta ljóðskálds.“

Í sama streng tekur Kolbrún Bergþórsdóttir í Morgunblaðinu: „Ljóðabókin Strandir er enn ein sönnun þess hversu gott ljóðskáld Gerður Kristný er. Þeir sem kvarta undan því að nútímaljóðagerð höfði ekki til þeirra eru sennilega ekki að lesa réttu ljóðabækurnar. Þeir ættu að ná sér í Strandir og njóta.“

Fleiri hafa heillast af Ströndum. „Gerður Kristný er það skáld okkar sem yrkir af mestri fágun, snerpu og einurð,“ sagði Jórunn Sigurðardóttir í þætti sínum Orð um bækur á Rás 1; Veru Knútsdóttur, sem skrifaði um bókina í vefritið Druslubækur og doðrantar, fannst bókin einstaklega fjölbreytt „ – allt í senn skemmtileg og sorgleg, hlý og kaldhæðin.“ Og Úlfhildur Dagsdóttir vísar í myndmál ljóðskáldsins þegar hún segir á bokmenntir.is:  „Hún er fótviss á svellinu, verðlaunaskáldkonan Gerður Kristný, og hefur greinilegan meðbyr. … Það sem stendur þó upp úr er ljóðabálkurinn „Skautaferð“ sem er með því besta sem skáldkonan hefur sent frá sér.“

Síðasta ljóðabók Gerðar, Blóðhófnir, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og hefur komið út víða um heim. Það er ljóst af viðbrögðum gagnrýnenda nú að skáldkonan gefur ekkert eftir í Ströndum og réttast að grípa til orða Kolbrúnar Bergþórsdóttur og segja: Náið ykkur í hana og njótið!

INNskráning

Nýskráning