Næstu bækur í klassíkina

Eitt helsta stolt Forlagsins er Klassíski klúbburinn sem sendir áskrifendum sínum sígilda bók sex sinnum á ári, íslenska og erlenda til skiptis. Yfirleitt eru valdar bækur sem lengi hafa verið ófáanlegar og er óhætt að segja að áskrifendur klúbbsins frá byrjun hafi nú eignast dágott safn öndvegisrita með fáránlega litlum tilkostnaði. Meðal bóka sem hefur verið sérstaklega fagnað má nefna Miðnæturbörn Salmans Rushdie, Sögur og ljóð Ástu Sigurðardóttur, Meistarann og Margarítu eftir Mikhaíl Búlgakov, 79 af stöðinni eftir Indriða G. Þorsteinsson, Ævintýri góða dátans Svejks eftir Jaroslav Hašek, Snöruna eftir Jakobínu Sigurðardóttur, Veröld sem var eftir Stefan Zweig og Hundrað ára einsemd eftir Gabríel García Márquez.

Ein bók slær þó þessum öllum við í vinsældum en það er Fátækt fólk, fyrsta bindi endurminninga Tryggva Emilssonar verkamanns. Um þessar mundir kemur út ný prentun af henni og framhald hennar, Baráttan um brauðið, er næsta bók sem áskrifendur Klassíska klúbbsins fá senda. Mikið hefur verið spurt um hana síðan Fátækt fólk kom út enda von að nýir lesendur séu forvitnir um fullorðinsár Tryggva. Erfiðleikar hans voru sannarlega ekki á enda þótt bernskan væri að baki en frá öllu segir hann á stilltan, húmorískan og skáldlegan hátt.

Næsta erlenda öndvegisritið sem berst áskrifendum er Veisla í farángrinum, endurminningar Ernests Hemingway frá árunum þegar hann gekk um og svalt í París sem ungur rithöfundur. Bókin var ekki gefin út fyrr en að Hemingway látnum, 1964, en Halldór Laxness var snöggur að þýða hana. Á íslensku kom hún út strax 1966. Frásögnin gefur lifandi og tilfinningaríka mynd af lífi listafólks í París á þriðja áratugnum og þar spretta fram ótal kunnar persónur, m.a. Ezra Pound, F. Scott Fitzgerald, James Joyce og Gertrude Stein. Nafnið á bókinni er sótt í orð sem ævisöguritari Hemingways, A.E. Hotchner, hafði eftir honum: „Hver sem í æsku átti því láni að fagna að ílendast í París um skeið, hann mun sanna að hvar sem leiðir liggja síðan er París í för með honum eins og veisla í farangrinum.“ Þú getur séð allar bækur Klassíska klúbbsins hér og gerst áskrifandi.

INNskráning

Nýskráning