Milan Kundera

Milan Kundera vill ekki rafbækur

Mánudaginn 11. júní hélt franska Landsbókasafnið (BNF) árlegan fjáröflunarkvöldverð  í París. Við það tækifæri voru bókmenntaverðlaun franska Landsbókasafnsins veitt í fjórða sinn, en þau eru veitt núlifandi frönskumælandi höfundi fyrir heildarverk hans.

Að þessu sinni var það rithöfundurinn  Milan Kundera, 83 ára, sem hlaut þau. Skáldsagnahöfundurinn af tékknesku bergi brotinn sem hefur búið í Frakklandi fá 1975 var ekki viðstaddur af heilsufarsástæðum. Í þakkarorðum sem hann sendi og útgefandi hans, Antoine Gallimard, las upp tók  Milan Kundera fram að í öllum samningum um bækur hans væri ákvæði um að bannað er að gefa bækur hans út á rafrænu formi. Meistaraverk eins og List skáldsögunnar, Óbærilegur léttleiki tilverunnar og Bókin um hlátur og gleymsku munu því ekki vera fáanleg í rafbók. Með þessu er höfundurinn að undirstrika hvað honum er annt um að bækur haldi áfram að koma út á pappír.

Þessi orð hans hafa sennilega hljómað undarlega í eyrum þeirra 250 gesta sem sóttu veisluna, því þennan sama morgun hafði Antoine Gallimard, sem formaður félags franskra útgefenda, undirritað samning við Google sem heimilar rafræna sölu á frönskum bókum sem eru enn í rétti en eru uppseldar, ef um semst við viðkomandi útgefanda og höfund.


INNskráning

Nýskráning