Elena Poniatowska, einn merkasti rithöfundur Mexíkó, er stödd á Íslandi um þessar mundir. Hún kemur í tilefni útgáfu bókar hennar, Jesúsa: Óskammfeilin, þverúðug og skuldlaus, sem kom út á íslensku í síðustu viku.
Elena Poniatowska er áttræð en lætur það ekki stoppa sig í að ferðast heimshornanna á milli. Hún er kröftug og hefur verið það í skrifum sínum síðustu áratugina um samfélagsleg vandamál í Mexíkó, og hefur ekki hlíft neinum í gagnrýnum skrifum sínum og beittri ádeilu.
Haldið var höfundakvöld til heiðurs Elenu í Iðnó. Salurinn var troðfullur og þegar Elena flutti ávarp sitt mátti finna áþreifanlega fyrir áhrifunum sem hún hafði á hlustendur sína. Bók Elenu, Jesúsa, er byggð á raunverulegri konu og Elena sagði frá því þegar hún kynntist henni fyrst og þeirra kynnum í tengslum við bókina. Frásögnin var sorgleg, fyndin og afar áhugaverð og líklegt er að hver einasta sála í salnum hafi langað að vita meira um þessa mögnuðu konu.
Það er auðfengið þar sem bókin er nú komin út í frábærri þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur, fyrsta bók Elenu Poniatowsku sem þýdd er á íslensku, og því ber svo sannarlega að fagna.