Léttlestrarbækur Ævars Þórs slá í gegn á Norðurlöndum

„Stöngin inn!“ sagði útgefandi Ævars Þórs Benediktssonar Benediktssonar, Catrine Christell forleggjari hjá sænska forlaginu Opal, um þátttöku hans á Bókasýningunni í Gautaborg.

Rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson var gestur á Bókasýningunni í Gautaborg í lok september og vakti heimsókn hans stormandi lukku meðal gesta, svo mikla að bækurnar seldust upp á messunni. Ævar var í dagskrá með sænska rithöfundinum David Sundin um lestur, leik og lestrarhvetjandi bækur en Ævar hefur skrifað fjölda bóka sem eru byggðar upp eins og tölvuleikir, lesendur ráða söguþræði og bókarlokum. Þetta hefur vakið mikla lukku hjá ungum lesendum, innanlands og utan. Í ferðinni heimsótti Ævar líka hóp íslenskra barna í Gautaborg og las með þeim.

Bækur Ævars hafa vakið mikla athygli í Svíþjóð. Bókaforlagið Opal gaf út í sumar bækurnar Börn Loka og Draugagang og ætla að halda áfram með þennan spennandi bókaflokk, enda falla bækurnar vel í kramið hjá sænskum lesendum. Bókasafnsfræðingar í Svíþjóð völdu Börn Loka sem eina af bestu nýju barnabókunum í Svíþjóð. Í Danmörku er það sama uppi á teningnum, bækurnar njóta vinsælda meðal danskra barna og fleiri bækur eru væntanlegar til útgáfu hjá forlaginu Bolden, meðal annars hrollvekjan Skólaslit sem kom út í fyrra.

„Það er virkilega gaman að fá að fylgja bókunum sínum um heiminn, að ég tali nú ekki um að fá að ræða lestur og lestrarhvatningu á erlendri grundu. Svo skemmtir ekki fyrir að fá að hitta íslenska krakka og lesa fyrir þau.“ sagði Ævar glaður í bragði eftir heimsóknina til Gautaborgar.

INNskráning

Nýskráning