Íslenska kvikmyndafélagið, með Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp í fararbroddi, hefur keypt kvikmyndaréttinn á skáldsögu Sólveigar Pálsdóttur, Leikaranum.
Leikarinn kom út síðastliðið vor og er fyrsta skáldsaga Sólveigar Pálsdóttur, sem er leikari og framhaldsskólakennari.
Leikarinn er einstaklega fjörug og kraftmikil glæpasaga, atburðarásin hröð og persónurnar dregnar sterkum dráttum. Í byrjun bókar hnígur einn dáðasti leikari landsins niður í miðjum kvikmyndatökum án þess að tökuliðið í kringum hann fái neitt að gert. Lögreglan á flókið starf fyrir höndum.
Sólveig hefur fengið frábæra dóma fyrir þessa fyrstu skáldsögu sína og er nú þegar með nýja bók í smíðum.