Kristín Ómarsdóttir hlýtur Maístjörnuna

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2017 hlýtur Kristín Ómarsdóttir fyrir bók sína Kóngulær í sýningargluggum. Það eru Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem standa að verðlaununum sem voru veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í dag, 29. maí.
x
Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:
„Danse macabre er miðaldalíking yfir dauðadansinn sem sameinar okkur öll, háa sem lága, unga sem gamla, konur sem karla, og hann stígum við mannfólkið allt okkar líf. Í þróttmikilli ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur er stiginn dans af sama tagi, líf og dauði tvinnast saman í köngulóarvef og hvergi er hægt að staldra við fremur en á sjálfri lífsleiðinni, heimurinn er fullur af undrum og óhugnaði, fegurð og ljótleika, völdum og valdaleysi og ótalmörgu öðru. Myndmálið er afar sterkt, stundum allt að því yfirþyrmandi, og ljóðavefur Kristínar heldur okkur föngnum, því hann er samtími okkar sjálfra. Kóngulær í sýningargluggum er afar óvenjuleg, einstaklega sterk og ögrandi ljóðabók og allar líkingar og lýsingar opna nýjar víddir og nýja sýn á heiminn.“

Kristín Ómarsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík og hefur jöfnum höndum fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skáldsagan Elskan mín ég dey var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og leikritið Ástarsaga 3 til Norrænu leikskáldaverðlaunanna. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin, sem leikskáld ársins, fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókinaSjáðu fegurð þínahlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008. Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á sænsku, frönsku og finnsku og ljóð hennar hafa birst í erlendum safnritum.

Maístjarnan eru einu verðlaunin á Íslandi sem eingöngu eru veitt fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Þeim er ætlað að hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur. Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur.
Tilnefndar voru bækurnar:
  • Án tillits eftir Eydísi Blöndal í útgáfu höfundar;
  • Dauðinn í veiðarfæraskúrnum eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem Viti menn gaf út og JPV útgáfa/Forlagið hefur endurútgefið
  • Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem  Benedikt bókaútgáfa gaf út;
  • Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttir sem JPV útgáfa gaf út.
  • Stór olíuskip eftir Jónas Reyni Gunnarsson í útgáfu Partus

Starfsfólk Forlagsins óskar Kristínu innilega til hamingju með verðlaunin!

INNskráning

Nýskráning