Jussi Adler-Olsen kom til Íslands á mánudaginn síðasta og hefur haft nóg að gera síðan. Hann var varla lentur þegar hann fór á fund með Sigurjóni Sighvatssyni kvikmyndagerðarmanni sem mun að öllum líkindum framleiða kvikmynd eftir fyrstu skáldsögu Jussi. Á fundinum handsöluðu þeir samkomulag þess efnis en eingöngu á eftir að ganga frá endanlegum samningi.
Á þriðjudaginn hitti Jussi mikið af fólki, fjölmiðlafólk, bóksala, starfsfólk Forlagsins og kom við á lager Forlagsins þar sem hann knúsaði bækurnar sínar. Danskir kvikmyndagerðarmenn fylgdu honum við hvert fótspor en unnið er að heimildarmynd um kappann.
Á fimmtudaginn, 30. september, verður Jussi gestur á höfundakvöldi í Norræna húsinu þar sem Árni Matthíasson mun ræða við hann um verk hans. Allir eru velkomnir að koma og hlýða á.
Bækurnar Konan í búrinu, Veiðimennirnir og Flöskuskeyti frá P hafa komið út á íslensku eftir Jussi og hafa verið ansi vinsælar meðal íslenskra lesenda.