Íslensku þýðendaverðlaunin

Jón St. Kristjánsson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin

Jón St. Kristjánsson hlaut um helgina Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á Hinum ósýnilegu eftir Roy Jacobsen.
Í umsögn dómnefndar kemur fram að að stíll Jacobsens sé ljóðrænn, tær og stundum kímniblandinn og verk hans hafi hlotið verðskuldaða athygli. „Blær skáldsögunnar kemst einkar vel til skila í fallegri og vandaðri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Þýðingin er áreynslulaus og fáguð, og ber jafnframt merki um frábært vald þýðandans á íslensku máli.“
Í dómnefnd sátu Ásdís R. Magnúsdóttir formaður, Steinþór Steingrímsson og Elísabet Gunnarsdóttir.

Íslensku þýðingaverðlaunin, sem Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefanda standa að, voru sett á stofn til að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur vandaðar erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar.

Aðrir tilnefndir voru:
Arthúr Björgvin Bollason, fyrir þýðingu sína Tími töframanna. Höfundur Wolfram Eilenberger. Háskólaútgáfan gefur út.
Elísa Björg Þorsteinsdóttir, fyrir þýðingu sína Kona í hvarfpunkti. Höfundur Nawal el Saadawi. Angústúra gefur út.
Guðbergur Bergsson, fyrir þýðingu sína Skáldið er eitt skrípatól. Um ævi og skáldskap Fernando Pessoa. Höfundur Guðbergur Bergsson. JPV gefur út.
Guðni Kolbeinsson, fyrir þýðingu sína Kalli breytist í kjúkling. Höfundur Sam Copeland. JPV gefur út.
Ingunn Ásdísardóttir, fyrir þýðingu sína Blá. Höfundur Maja Lunde. Mál og menning gefur út.
Jón St. Kristjánsson, fyrir þýðingu sína Hin ósýnilegu. Höfundur Roy Jacobsen. Mál og menning gefur út.
Þórarinn Eldjárn, fyrir þýðingu sína Jónsmessunæturdraumur. Höfundur William Shakespeare. Vaka-Helgafell gefur út.

Íslensku þýðendaverðlaunin
Frá vinstri eru: Jón St. Kristjánsson þýðandi, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.

INNskráning

Nýskráning