Helgi Björnsson

Jöklar og ís í Melaskóla

Á degi íslenskrar náttúru kemur út bókin Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni? í samstarfi Forlagsins og Vísindavefsins. Bókin er eftir Helga Björnsson, einn fremsta jöklafræðing heims, og fjallar um jökla og loftslagsbreytingar þannig að börn og unglingar geta auðveldlega tileinkað sér efnið. Bókina prýðir fjöldi mynda eftir Þórarin Má Baldursson sem skýra og skemmta.

Að morgni útgáfudagsins kynnti Helgi bókina fyrir um eitt hundrað 7. bekkingum í Melaskóla, en hann stundaði sjálfur nám við skólann þegar hann var strákur. Við sama tilefni var Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhent fyrsta eintakið af bókinni. Allir 7. bekkir Melaskóla fengu jafnframt eintak og ekki veitir af því nemendurnir voru forvitnir um málefnið og spurðu höfundinn spjörunum úr.

INNskráning

Nýskráning