Vilborg Davíðsdóttir

Húsfyllir hjá Vilborgu í Hannesarholti – dagskráin verður endurtekin

Hannesarholt yfirfylltist í gær þegar Vilborg Davíðsdóttir hélt þar myndskreyttan fyrirlestur til að kynna bók sína Ástin, drekinn og dauðinn. Í bókinni lýsir hún vegferð sinni og Hennar heittelskaða með sjúkdómnum sem þau vissu að myndi draga hann til dauða og fyrsta árinu eftir að hún varð ekkja. Bókin veitir í senn innsýn í veröld krabbameinsins og djúpa sorg þess sem hefur elskað og misst. En hún er ekki síður óður til kærleikans, hvatning til að lifa í árvekni og sættast við að dauðinn er órjúfanlegur hluti af lífinu.

Svo vinsæll var fyrirlestur Vilborgar að húsið yfirfylltist og einhverjir urðu frá að hverfa. Því hefur verið ákveðið að Vilborg endurtaki leikinn fimmtudaginn 23. apríl, sem er dagur bókarinnar og sumardagurinn fyrsti. Í veitingastofum Hannesarholts verður hægt að gæða sér á matarmikilli súpu og heimabökuðu brauði áður en viðburðurinn hefst. Ráðlegt er að panta borð í síma: 511 1904.

Bók Vilborgar fær gríðargóðar viðtökur og vermir nú annað sætið á nýbirtum metsölulista bóksölukeðjunnar Eymundsson.

INNskráning

Nýskráning