Sigurður Pálsson fæddist 30. júlí 1948 á Skinnastað í N-Þingeyjarsýslu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, stundaði síðan frönskunám í Toulouse og París og nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne. Einnig lauk hann námi í kvikmyndasleikstjórn. Sigurður fékkst við ýmis störf um ævina. Hann var fréttaritari, leiðsögumaður, kennari og vann við sjónvarp og kvikmyndir en einkum fékkst hann þó við ritstörf og þýðingar. Hann var forseti Alliance Française um skeið og formaður Rithöfundasambands Íslands. Síðustu æviárin kenndi hann ritlist við Háskóla Íslands.
Eftir Sigurð liggja fjölmargar ljóðabækur en sú fyrsta, Ljóð vega salt, kom út 1975. Hann skrifaði einnig skáldsögur og endurminningabækur, leikrit, sjónvarps- og útvarpshandrit og óperutexta, og sendi að auki frá sér fjölda þýðinga. Sigurður var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993 fyrir ljóðabókina Ljóð námu völd og aftur 2018 fyrir Ljóð muna rödd. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2007 fyrir Minnisbók og hafði þá áður verið tilnefndur til þeirra fyrir Ljóðlínuskip og Ljóðtímaleit. Þá hlaut hann Grímuverðlaunin árið 2008 fyrir leikverkið Utan gátta. Ljóð hans hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál.
Sigurður var borgarlistamaður Reykjavíkurborgar á tímabilinu 1987–90, honum var veittur riddarakross Orðu lista og bókmennta (Chevalier de l’Ordre des Arts et des Lettres) af menningarmálaráðherra Frakklands árið 1990 og Frakklandsforseti sæmdi hann riddarakrossi Frönsku heiðursorðunnar (Chevalier l’Ordre National du Mérite) árið 2007. Hann hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2016. Á nýársdag 2017 var Sigurður sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta og menningar og í maí það ár veittu Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands honumi Maístjörnuna fyrir ljóðabókina Ljóð muna rödd. Sigðurður lést 19. september 2017.