Óskar Magnússon (f. 1954) nam lögfræði við Háskóla Íslands og lauk meistaranámi í viðskiptalögfræði frá George Washington University í Bandaríkjunum. Hann hefur verið blaðamaður, lögmaður og hæstaréttarlögmaður, sem og forstjóri og stjórnarformaður ýmissa fyrirtækja auk þess að hafa setið í stjórnum fjölda fyrirtækja. Óskar býr í Fljótshlíð þar sem hann sinnir bústörfum meðfram ritstörfunum.
Árið 2006 kom út fyrsta bók hans, smásagnasafnið Borðaði ég kvöldmat í gær, og þar kvað strax við þann hnyttna og háðska tón sem einkennir verk hans. Annað smásagnasafn, Ég sé ekkert svona gleraugnalaus, kom út fjórum árum síðar og fyrsta skáldsaga hans, Látið síga piltar, árið 2013. 2016 hóf Óskar að rita um ævintýri Stefáns Bjarnasonar verjanda, sem er hörkutól í dómssal en sem leir í höndum fagurra fljóða, og eru þær bækur nú orðnar þrjár talsins: Verjandinn, Dýrbítar og Leyniviðauki 4.