Óskar Guðmundsson (f. 25. ágúst 1950) hefur ritað fjölda sagnfræðilegra verka, þar á meðal sjö bækur um fyrstu aldir Íslandssögunnar í Alda-bókaflokknum og ævisögu Snorra Sturlusonar. Óskar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1971. Hann lagði stund á nám í sagnfræði, bókmenntum og þjóðfélagsfræði í háskólum í Reykjavík, Bremen í Þýskalandi og í Kaupmannahöfn. Á árum áður starfaði hann meðal annars sem kennari, ritstjóri Stúdentablaðsins, ritstjóri vikublaðsins Norðurland á Akureyri, en á árunum 1981–1992 var hann blaðamaður, fréttastjóri og ritstjórnarfulltrúi á Þjóðviljanum og loks ritstjóri fréttatímaritsins Þjóðlífs.
Frá árinu 1994 hefur Óskar unnið sem sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur og hefur komið að útgáfu fjölda bóka og rita sem ritstjóri og höfundur.