Heimili höfundanna

Ofeigur_Gassi_2023_profile
Ófeigur Sigurðsson
Ófeigur Sigurðsson er fæddur í Reykjavík 1975. Hann stundaði heimspekinám við Háskóla Íslands og lauk BA-prófi þaðan árið 2007. Hann hefur gegnt ýmsum störfum, m.a. flutt pistla í útvarp, en er rithöfundur að aðalstarfi. Fyrsta bók Ófeigs var ljóðabókin Skál fyrir skammdeginu sem kom út árið 2001. Í kjölfarið fylgdu allnokkrar ljóðabækur og árið 2005 kom út fyrsta skáldsaga hans, Áferð. Það var þó önnur skáldsagan sem fyrst vakti verulega athygli á höfundinum; hún kom út árið 2010 og nefnist Skáldsaga um Jón og hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur og undirbjó komu hennar og nýrra tíma, en þar segir frá Jóni Steingrímssyni eldklerk sem uppi var á 18. öld. Ófeigur hélt áfram að skrifa skáldsögur og árið 2014 sló hann mjög eftirminnilega í gegn með skáldsögunni Öræfum sem fékk gríðarmikið lof hjá gagnrýnendum og lesendur tóku henni sömuleiðis opnum örmum; hún varð metsölubók, flestum að óvörum enda ekkert léttmeti. Bókin er magnaður óður um öræfi landsins og mannssálarinnar, og vitnar um djúpa tilfinningu höfundar fyrir íslenskri náttúru og mannlífi gegnum aldirnar – en er þó saga úr samtímanum. Ófeigur skrifar ævintýralegan texta þar sem kraftmikil ádeila og fjarstæðukennt grín skiptast gjarnan á, hann er hugmyndaríkur og stílfimur og þekking hans á sögu og bókmenntum skín í gegn. Skáldsaga um Jón … hlaut Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins árið 2011, fyrst íslenskra skáldverka, og metsölubókin Öræfi hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2014, sem og Verðlaun starfsfólks bókaverslana. Bækur Ófeigs hafa verið þýddar og gefnar út í Evrópulöndum og í Bandaríkjunum. Smásagnasafnið Váboðar leit dagsins ljós árið 2020 og í dag eru skáldsögur Ófeigs orðnar alls sjö talsins; Heklugjá kom út árið 2018, Far heimur far sæll árið 2023 en Skrípið árið 2024. Í þeirri síðastnefndu siglir Ófeigur á ný mið og tekur stöðuna á samtímanum í tragikómísku uppgjöri við kóvid-faraldurinn. Ljósmynd af höfundi: Gassi Ljósmynd af höfundi: Gassi

Bækur eftir höfund

Skripid_72pt
Skrípið
4.290 kr.4.690 kr.
Farheimfarsaell_72pt
Far heimur, far sæll
3.690 kr.4.690 kr.
Öræfi
Öræfi
990 kr.3.700 kr.
Váboðar
Váboðar
1.490 kr.3.990 kr.
  • 2