Linda Vilhjálmsdóttir er fædd árið 1958 og ólst upp á Seltjarnarnesi. Hún er sjúkraliði að mennt og starfaði um árabil á heilbrigðisstofnunum en hefur um langa hríð einkum sinnt ritstörfum. Ljóð eftir Lindu fóru að birtast opinberlega í blöðum, tímaritum og safnritum frá 1982. Hún skipaði sér strax í hóp athyglisverðustu ljóðskálda og var m.a. eitt þeirra sjö ungu skálda sem tóku þátt í ljóðagjörningnum „Fellibylurinn Gloría“ sem gefinn var út á hljóðsnældu árið 1985. Fyrsta ljóðabók hennar, Bláþráður, kom svo út árið 1990. Síðan hefur hún sent frá sér allnokkrar ljóðabækur en stundum hefur liðið langt á milli; verðlaunabókin Frelsi frá 2015 kom til að mynda út eftir níu ára útgáfuhlé. Ljóðverk Lindu hafa einnig verið sett upp í leikhúsum og víðar. Árið 2003 gaf hún út sjálfsævisögulega skáldsögu sem ber titilinn Lygasaga og vakti mikla athygli. Linda hefur hlotið mikið og verðskuldað lof fyrir ljóð sín sem eru meitluð og áhrifarík, oft pólitísk og beitt. Ýmis verðlaun og viðurkenningar hafa fallið henni í skaut fyrir ljóðabækurnar, ekki síst Frelsi, en fyrir hana var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og hlaut bæði Menningarverðlaun DV og Verðlaun starfsfólks bókaverslana. Ljóð hennar hafa birst í erlendum þýðingum í safnritum og víðar; Frelsi hefur verið þýdd og gefin út í heild á nokkrum tungumálum og fyrir pólska þýðingu hennar hlaut Linda verðlaun á bókmenntahátíðinni „Evrópsk frelsisskáld“ vorið 2018. Heildarsafn ljóða Lindu, sem ber titilinn Safnið, kom út 2024.