Jón Hjartarson er fæddur 1942 á Hellissandi. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1965 og prófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur 1968. Hann var um langt árabil fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur og starfaði einnig með sjálfstæðum leikhópum. Á löngum ferli hefur hann túlkað geysimörg hlutverk á sviði, í sjónvarpi, útvarpi og kvikmyndum. Jafnframt hefur hann skrifað fjölda leikrita og leikgerða, sent frá sér samtalsbækur, barna- og unglingabækur, samið söngtexta, pistla og skemmtiþætti. Árið 2021 hlaut hann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrstu ljóðabók sína sem ber titilinn Troðningar.