Hildur Knútsdóttir er fædd 1984 og er með BA-gráðu í bókmenntum og skapandi skrifum frá Háskóla Íslands. Hún er fjölhæfur, hugmyndaríkur og afkastamikill höfundur sem skrifar bæði fyrir börn og fullorðna og velur sér sögusvið jöfnum höndum úr hversdeginum og veröld furðusagna – gjarnan á mörkum beggja þessara heima. Hildur hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir ungmennabækur sínar. Árið 2015 hlaut hún Fjöruverðlaunin fyrir Vetrarfrí og ári síðar Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir framhaldsbókina Vetrarhörkur. Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar hefur hún hlotið tvisvar, fyrir Ljónið árið 2019 og Hrím árið 2024. Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana hefur hún fengið fimm sinnum, fyrir Vetrarhörkur, Ljónið, Nornina, Skóginn og Hrím. Hrím var auk þess tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Einnig hafa nóvellur Hildar fyrir fullorðna vakið mikla athygli, bæði hér heima og erlendis, og var Myrkrið milli stjarnanna valin ein af bestu hrollvekjum ársins 2024 af bæði Literary Hub og The New York Times.
Hildur hefur jafnframt skrifað fjórar ungmennabækur í samstarfi við Þórdísi Gísladóttur.