Birgitta Haukdal er fædd 28. júlí 1979 á Húsavík. Hún er ein ástsælasta söngkona landsins, meðal annars með hljómsveitinni Írafár og svo tók hún þátt í Eurovision fyrir hönd Íslands með glans. Hún hefur sinnt ýmsum störfum, til dæmis kennt söng og leikið hina ógleymanlegu Geddu gulrót í Ávaxtakörfunni, bæði í leikritinu 2005 og kvikmyndinni 2012. Rithöfundurinn Birgitta Haukdal steig fram á sjónarsviðið árið 2015 þegar fyrstu Láru-bækurnar komu út, Lára lærir að hjóla og Lára fer í flugvél, og slógu eftirminnilega í gegn. Síðan þá hafa komið tvær nýjar sögubækur um þau Láru og Ljónsa á hverju ári, auk bendibókanna Lára og Ljónsi sem henta minnstu lesendunum. Einnig hafa komið út þrjár vinsælar tónlistarbækur, Syngdu með Láru og Ljónsa, Syngdu jólalög með Láru og Ljónsa og Syngdu vögguvísur með Láru og Ljónsa, en þar geta lesendur hlustað á uppáhaldslög Láru og Ljónsa í flutningi Birgittu. Tvær Lárubækur hafa verið þýddar á ensku, Lara visits the farm og Lara goes swimming.
Það skiptir Birgittu miklu máli að persónurnar í bókunum séu góðar fyrirmyndir. Krakkar eiga að geta samsamað sig við Láru, vini hennar og fjölskyldu. Enginn er fullkominn og Lára getur sannarlega verið óþekk eða gert ýmis mistök. Bækurnar lýsa venjulegu lífi, þetta eru sögur úr raunveruleikanum, eitthvað sem þeim fullorðnu finnst hversdagslegt en börnum finnst vera stórkostlegt ævintýri.