Áslaug Jónsdóttir myndskreytir, grafískur hönnuður, rithöfundur og myndlistamaður er fædd árið 1963. Eftir hana liggja tugir bóka auk þess sem hún hefur myndlýst fjölda bóka eftir aðra höfunda, átt framlag í safnritum, bæði texta og myndir, og skrifað leikgerðir af sögum sínum. Þekktustu verk hennar eru bækurnar um litla skrímslið, sem hún skrifar með Kalle Güettler og Rakel Helmsdal, og myndskreytingarnar í Sögunni af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason.
Stílhreinar og tjáningarríkar myndir Áslaugar og skemmtilegir textar hafa skilað henni fjölda viðurkenninga. Hún fékk íslensku myndskreytiverðlaunin Dimmalimm tvö ár í röð fyrir Gott kvöld og Nei! Sagði litla skrímslið, Gott kvöld og Stór skrímsli gráta ekki hlutu Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar, Sagan af bláa hnettinum fékk Barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins og Skrímsli í vanda fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin.
Áslaug hefur þrisvar sinnum verið tilnefnd á heiðurslista alþjóðlegu IBBY-samtakanna og verið tilefnd af Íslands hálfu til Norrænu barnabókaverðlaunanna, Norrænu leikskáldaverðlaunanna, ALMA-verðlaunanna (Astrid Lindgren Memorial Award), H.C. Andersen-verðlaunanna og Verðlauna Norðurlandaráðs. Þá hefur hún hlotið Grímuna, Íslensku leiklistarverðlaunin, viðurkenningu úr Bókasafnssjóði höfunda og Viðurkenningu Barnabókaráðsins, Íslandsdeildar IBBY.