Unglingar

Hin endanlega unglingabók

Leiksýningin um Unglinginn sló rækilega í gegn í Gaflaraleikhúsinu í fyrra en unglingunum Óla Gunnari og Arnóri liggur meira á hjarta og nú ætla þeir að skrifa bók. Hún ber vinnuheitið Leitin að tilgangi unglingsins – Smáfræðirit og verður að sögn höfundanna bók sem allir unglingar vilja lesa, líka þeir sem alls ekki nenna að lesa. Með unglingunum í liði er Bryndís Björgvinsdóttir, höfundur verðlaunabókarinnar Hafnfirðingabrandarans, en sjálf var hún ekki nema fimmtán ára þegar hún sendi frá sér sína fyrstu bók, Orðabók Ormars ofurmennis.

Höfundarnir ungu hafa þegar hlotið fyrstu umsögnina um bók sína því á dögunum hlutu þeir nýræktarstyrk Miðstöðvar Íslenskra bókmennta með eftirfarandi rökstuðningi: „Hér hafa þróttmiklir ungir listamenn, sem hafa þegar sannað sig í skapandi starfi, samið bráðskemmtilega, metnaðarfulla og frumlega bók. Höfundar lögðu upp með að semja áhugaverða sögu sem væri um leið uppflettirit fyrir unglinga og er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverkið svo vel að eftir verði tekið.“

Bók þremenninganna er enn í vinnslu en það er óhætt að lofa því að hún verður hrikalega fyndin og skemmtileg – og algerlega ein sinnar tegundar. Í dag var samið við Óla Gunnar, Arnór og Bryndísi og bíða ritstjórar Forlagsins í ofvæni eftir því að handritið skili sér í hús.

INNskráning

Nýskráning