Hildur Knútsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkur 2024

Einar Þorsteinsson borgarstjóri veitti Hildi Knútsdóttur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki frumsaminna verka fyrir bókina Hrím við hátíðlega athöfn í Höfða, síðasta vetrardag.

„Hildur Knútsdóttir er ötull og metnaðarfullur höfundur furðu- og ævintýrasagna fyrir ungmenni og fer oft ótroðnar slóðir í verkum sínum. Í bók sinni Hrím skapar Hildur nýjan heim sem er gerólíkur okkar, en er engu að síður okkar kunnuglega Þingeyjarsýsla. En veruleikinn er allt annar. Á þessu Íslandi er nokkurs konar ættbálkasamfélag eða hirðingjasamfélag sem skiptist í skara eftir búsetu. Líf fólksins er erfitt og þrungið hættu við hvert fótmál. Dýrin eru mun stærri, voldugri, hættulegri, þar eru haðnaut, skriðukettir, ógnarstórir laxar sem éta fólk, og skelfilegar óvættir sem kallast hrímsvelgir. Tungutak bókarinnar ber með sér mikla virðingu höfundar fyrir lesendum sínum, en það virkar í senn nokkuð fyrnt auk þess að fjölmörg ný en engu að síður fornleg orð skjóta fumlaust upp kollinum. Nöfn persónanna endurspegla jafnframt samfélagið: Jófríður, Eirfinna, Bresi, Auðni, Karki, Kneif. Allt verður þetta áþreifanlegt og raunverulegt í meðförum Hildar, líkt og heimur sem ætíð hefur verið til og við ættum að vera kunnug. Hrím er öðruvísi bók, meitluð, hvarvetna vandað til verka, spennandi bók og ber með sér fyrirheit um heilan bókaflokk um lífsbaráttu skaranna og vægðarlaus náttúruöflin,“ segir í umsögn dómnefndar.

INNskráning

Nýskráning