Guðmundur Páll Ólafsson

Guðmundur Páll Ólafsson látinn

Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur, rithöfundur, ljósmyndari og náttúruverndari lést þann 30. ágúst eftir erfiða baráttu við krabbamein. Guðmundur Páll var brautryðjandi í íslenskri náttúruverndarbaráttu og skilur eftir sig glæsilegar bækur sem hafa haft mikil áhrif á náttúruvitund og þekkingu almennings. Í bókum hans má finna víðtækan fróðleik, náttúrufræði, ljóð og heimspeki í fullkomnu samræmi við heimssýn hans.

Guðmundur Páll var fæddur árið 1941 á Húsavík. Hann stundaði háskólanám og ýmis störf í Bandaríkjununum, starfaði sem skólastjóri og kennari á grunnskóla- og menntaskólastigi, lærði ljósmyndun og stundaði doktorsnám í sjávarlíffræði við Stokkhólmsháskóla. Á áttunda áratuginum starfaði Guðmundur Páll í Flatey á Breiðafirði, var skólastjóri og kennari, stundaði náttúru- og heimildaljósmyndun og kvikmyndagerð um þúsund ára sambúð manns og náttúru í Flateyjarhreppi.

Síðustu áratugina starfaði Guðmundur Páll jöfnum höndum sem rithöfundur, náttúrufræðingur, náttúruljósmyndari, virkur náttúruverndari og fyrirlesari heima og erlendis.

Guðmundur Páll hefur hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir verk sín, hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2001 fyrir Hálendið í náttúru Íslands og var tilnefdur til sömu verðlauna árið 1990 fyrir Perlur í náttúru Íslands og 1995 fyrir Ströndina í náttúru Íslands.

Starfsfólk Forlagsins er þakklátt fyrir samstarfið við Guðmund Pál og vottar fjölskyldu hans og vinum innilega samúð sína.

INNskráning

Nýskráning