Guðrún Jónsdóttir látin

Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi er látin. Guðrún var fædd í Vík í Mýrdal þann 16. júní árið 1931. Eftir stúdentspróf stundaði hún nám í félagsráðgjöf í Svíþjóð. Hún var fyrst Íslendinga til að mennta sig í faginu og byggði upp nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, þar sem hún starfaði sem kennslustjóri í tíu ár. Árið 1991 lauk Guðrún doktorsprófi frá Háskólanum við Sheffield. Við rannsóknina tók hún viðtöl við 27 brotaþola sifjaspella um reynslu þeirra af kynferðisofbeldi í æsku. Guðrún lét víða til sín taka í íslensku samfélagi en var einna þekktust fyrir kvenfrelsisbaráttuna. Hún var oddviti Kvennaframboðsins, kom að stofnun Kvennalista, Kvennaráðgjafar, Kvennaathvarfs og Samtaka kvenna á vinnumarkaði, auk þess sem hún var í lykilhlutverki við stofnun Stígamóta. Hún hlut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2007 fyrir frumherjastörf í félagsráðgjöf og framlag til réttindabaráttu.

Ævi- og baráttusaga Guðrúnar, Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg, kom út árið 2023 og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Í tilefni útgáfunnar stóðu Forlagið, Stígamót, Kvennaráðgjöfin, Félagsráðgjafafélag Íslands og félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands fyrir málþingi til heiðurs Guðrúnu. 

Forlagið sendir ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.

INNskráning

Nýskráning