Einn fremsti rithöfundur þjóðarinnar, stílsnillingurinn Guðbergur Bergsson, er níræður, en hann fæddist í Grindavík þann 16. október 1932. Guðbergur er einn áhrifamesti höfundur okkar á síðari hluta 20. aldar – og raunar fram á þennan dag. Fyrsta bók hans, Músin sem læðist, kom út árið 1961 og á síðasta ári sendi hann frá sér smásagnasafnið Hálfgerðar lygasögur með heilagan sannleika í bland undir merkjum JPV útgáfu.
Guðbergur hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, m.a. bókmenntaverðlaun dagblaðanna 1967, bókmenntaverðlaun DV 1983, Orðu Spánarkonungs (Riddarakross afreksorðunnar), Íslensku bókmenntaverðlaunin 1992 og 1998 og tilnefningu til sömu verðlauna 1993 og 1997, og Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar hlaut hann árið 2004. Árið 2006 var Guðbergur tilnefndur til hinna virtu ítölsku Noninu-verðlauna fyrir skáldsöguna Svaninn. Bækur hans, einkum Svanurinn, hafa notið mikilla vinsælda víða erlendis og verið þýddar á fjölmörg tungumál.
Forlagið óskar Guðbergi hjartanlega til hamingju með merkisafmælið!