Bubbi

Fyrsta endurprentun jólavertíðarinnar

Ljóðabók Bubba Morthens, Öskraðu gat á myrkrið, sem kom út fyrir rétt rúmum mánuði síðan hefur verið send í endurprentun og er því fyrsta endurprentun jólavertíðarinnar.

Bubbi Morthens hefur allt frá upphafi tónlistarferils síns verið maður orðsins; ekki síst þekktur og dáður fyrir söngtexta sína, sem margir hverjir eru einstaklega grípandi og myndrænir. Öskraðu gat á myrkrið er fyrsta ljóðabók Bubba – 33 óbundin ljóð, meitluð og kröftug, þar sem dregnar eru upp sláandi myndir af hörðum heimi; svörtum martraðarheimi vímu og ótta, og öskrinu sem óhjákvæmilega brýst út og klýfur myrkrið.

Hér að neðan má sjá brot úr nokkrum frábærum dómum sem bókin hefur hlotið.

? ? ? ?
„Hér er Bubbi einlægari og opnari en nokkru sinni fyrr og bókin er rússíbanareið í gegnum líf hans … Það ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart að Bubbi kunni að búa hugsanir sínar í orð, nánast hvert einasta mannsbarn á landinu kann textabrot eftir hann og ýmsir af frösum hans eru nánast orðnar ofnotaðar klisjur, en það er munur á söngtexta og ljóði og þessi bók skipar honum í flokk skálda.“
Friðrika Benónýsdóttir / Fréttatíminn

? ? ? ?
„Enginn þarf að velkjast í vafa um að þessi bók sætir tíðindum. Bubbi hefur numið nýjar lendur … Bókin er ágeng, ljóðmælandinn er allt að því grimmur á köflum, einkum við sjálfan sig … Hér eru tjöldin dregin frá því ógnvekjandi sviði sem heimur fíknarinnar er og ekkert dregið undan … Þessi bók er dimm, full af ógn, en það grillir í ljós á veikum kveik í lokin.“
Sölvi Sveinsson / Morgunblaðið

„Mjög vel unnin ljóðabók og áhrifamikil. Ég held að enginn geti lesið hana frá upphafi til enda og ekki verið snortinn … ótrúlega flott myndmál … Þegar maður er búinn að lesa þessa bók langar mann til að setjast niður með höfundinum og ræða bókina og þá hefur höfundinum tekist ansi vel upp.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Kiljan

INNskráning

Nýskráning