Þegar skáldsagan Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur kom út fyrir þrem árum skrifaði Árni Matthíasson á Morgunblaðinu: „…verður ekki annað sagt en að sú Auður djúpúðga sem birtist í samnefndri bók Vilborgar Davíðsdóttur sé mikið kjarnakvendi. Ég bíð spenntur eftir framhaldinu.“ Árni reyndist sannspár því í haust kemur út ný skáldsaga um Auði djúpúðgu sem mun kæta hina fjölmörgu aðdáendur fyrri bókarinnar.
Í lok fyrri bókar hvarf Auður frá Dyflinni á Írlandi með son sinn nýfæddan. Þegar nýja sagan hefst eru ellefu ár liðin. Auður er ríkur fjárbóndi á stórbýlinu Þórsá á Katanesi. Fólkið sitt á eynni Tyrvist hefur hún ekki hitt öll þessi ár þótt ekki sé langt að fara á góðu skipi því hún er hrædd um að faðir hennar, Ketill flatnefur, gefi hana öðrum manni. Vel ættaðar konur voru verðmæt skiptimynt en Auður vildi ráða sér sjálf. Þó er hún nú á leið á heimaslóðir því bróðir hennar, Helgi bjólan, heldur brúðkaup sitt og dóttur Ingólfs Arnarsonar. Sú ferð verður söguleg og framhaldið er ekki síður viðburðaríkt og ævintýralegt.
Vilborg hefur meistarapróf í þjóðfræði og skrifaði lokaritgerð sína um munnlega sagnahefð og þjóðtrú á Hjaltlandseyjum. Hún hefur farið margar ferðir um söguslóðir bóka sinna auk þess sem hún hefur lesið forna annála írska og skoska og sagnfræðirit frá öllum öldum til að komast sem næst staðreyndum um þessa spennandi og blóðugu tíma.