Leynist handrit í skúffu eða hugmynd í kolli? Nú er tækifærið! Forlagið og Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka auglýsa eftir handritum til að keppa um Íslensku barnabókaverðlaunin 2023. Sagan má vera fyrir tannlausa 1. bekkinga, símasjúka unglinga og öll þar á milli! Handritið þarf að vera að lágmarki 50 ritvinnslusíður að lengd og það skal merkja með dulnefni en rétt nafn höfundar, símanúmer og netfang fylgi með í lokuðu umslagi. Skilafrestur er til og með 1. febrúar 2023.
Handritum skal skila í fjórum eintökum til:
Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka
Forlagið
Bræðraborgarstíg 7
101 Reykjavík
Að Íslensku barnabókaverðlaununum standa, auk Forlagsins, fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Barnavinafélagið Sumargjöf og IBBY á Íslandi. Dómnefnd skipuð fulltrúum þeirra, auk tveggja nemenda úr 8. bekk, velur sigurhandritið sem kemur út hjá Forlaginu haustið 2023. Verðlaunin nema 1.000.000 króna auk höfundarlauna.
Verðlaunasjóðurinn áskilur sér rétt til að veita ekki verðlaunin ef ekkert handrit berst sem uppfyllir kröfur dómnefndar.